Djúp minninga

DJÚP MINNINGA 8. okt. – 23. okt. 2022

Gréta Mjöll Bjarnadóttir, Margrét Eymundardóttir og Ólöf Ágústína Stefánsdóttir
Opnun laugardaginn, 8. október kl 16.

Sýning í Grafíksalnum Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17. Gengið inn bakdyramegin.
Grafíksalurinn er opinn frá miðvikudegi til sunnudags kl 14 – 17.

Hver og einn einstaklingur fæðist með minningar forfeðra sinna og mæðra í frumunum. Eftir því sem á ævina líður hlaðast upp minningar, lifaðar og sögur frá öðrum. Þær hafa áhrif á okkur sem manneskjur. Hver erum við? Minningar ylja og minningar særa. Við opnum og lokum á þær til að geta haldið áfram daglegu amstri. Svo kemur að því að þær kalla á okkur, verða áleitnar og þarfnast krufningar. Á sýningunni Djúp minninga deilum við hver og ein minningum okkar í sameiginlegu rými sem mögulega kalla fram persónulegar minningar hjá áhorfandanum.

Rótin að sýningunni liggur í rannsóknarvinnu okkar, sem er sprottin úr jarðvegi listkennslu, listsköpunar og á sér samsvörun í reynslu okkar. Eftir að hafa kennt list- og verkgreinar um langt skeið höfum við að undanförnu unnið að undirbúningi námsefnis á því sviði. Markmið þeirrar samvinnu er meðal annars að kanna snertifleti listsköpunar, listkennslu og listrannsókna. Kennsla okkar hefur miðað að því að vekja áhuga barna og ungmenna ásamt því að hvetja þau til að dvelja í sköpuninni. Ef það tekst þá er markmiðum einstaklingsmiðaðrar kennslu náð. Með því að iðka list- og verkgreinar verður sköpunin að nærandi og styrkjandi afli. Áhugi á þessu sviði hefur leitt okkur áfram í flóknu starfi og þróunarvinnu. Við veltum fyrir okkur áleitnum spurningum um tilgang námsins í tengslum við: framtíðarsýn nemenda, eflingu sjálstæðis, velsæld, samfélagsbreytingar, listræn gildi og þarfir. Verkin á sýningunni byggja á þessum grunnþáttum og þeim sameiginlegu þráðum sem þeir kalla fram úr djúpi minninganna.

Plakat eftir Óðal Hjarn Grétu