GUNNHILDUR ÞÓRÐARDÓTTIR – “Slæður”

Síðasti sýningardagur

Sýningin Slæður með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur var opnuð í sal Íslenskrar grafíkur, Hafnarhúsinu 26. mars sl. Opnunin var einungis með örfáum boðsgestum og lifandi streymi á facebook. Nú er komið að síðust sýningarhelgi en sýningin samanstendur af grafíkverkum og teikningum í víðum skilningi, innsetningum gerðum úr gömlum gardínum sem ýmist hanga eða er stillt upp í notuðum vínkössum og minna á leikhús eða aðra viðburði í lífi manneskju. Sýningin minnir á hið dularfulla, hættulega, draugalega, leikræna og svífandi. Myndlistamaðurinn er að skoða upplifun fólks í rými og hvernig þau bregðast við slíku rými. Stuðst er við kenningar Toninos Griffero um stemningu og fagurferði í rými og hugtök í þeirri speki t.d. tilfinningatengd skynspeki og um hin lifandi líkama í lifandi rými. Allur efniviður á sýningunni er notaður enda er endurvinnsla, hringrásarhagkerfið og sjálfbærni listamanninum hugleikin þannig breytast gamlar álrimlagardínur í teikningu af fossi, gamalt garn breytist í teikningu af línum og gamalt stórris fær að vera innsetning.

Sýningin verður opin á milli kl.14-17 föstudags – sunnudaga en hún er einstaklega barnvæn sýning.

Gunnhildur lauk tvíhliða BA námi í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama háskóla árið 2006 og lauk viðbótardiploma í listkennslu við LHÍ á haustönn 2019. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars í Listasafni Reykjanesbæjar, Kirsuberjatrénu, í Suðsuðvestur, Flóru á Akureyri, í SÍM salnum, Slunkaríki, sal Íslenskrar grafíkur auk þess að taka þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Hafnarborg, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu, 002 gallerí og Tate Britain.

Atli Bender listamaður Grafíkvina 2021

Listamaður ársins 2021 er Atli Bender og verða grafíkverk hans tíl sýnis 5.-7. febrúar í sal félagsins á Vetrarhátíð.( Athuga að Safnanótt verður frestað í ár.)

Verkið “Undir teppinu” er óður til skammdegis og því sem Danir kalla að “hygge sig”. Kisi kúrir undir teppi Grafíkvina og neitar að fara fram úr. Kisan er persóna úr myndasögunni Doctor Comicus sem ég hef unnið og birt á samfélagsmiðlum undanfarinn ár” – Atli Bender

Stærð myndarinnar er 12,0 x 20,0 sm. Tækni er silkiþrykk og er þrykkt af listamanninum í 4 akryllitum á Munken Pure Laminated 300g pappír, 20,5 x 29,5 sm í 80 eintökum.

Atli Bender , f. 1987, nam grafiskur hönnun við Listaháskóla Íslands 2000-2014 og Universität der künst í Berlin 2013. Hann býr nú og starfar í Reykjavík og hefur verið iðinn seinustu ár við að grúska í grafík á prentverkstæðinu.

Atli fæst mest við teiknimyndasögur sem hann teiknar með vatnslitum, blýanti og akrýllitum. Myndasögur Atla má skoða á: http://www.instagram.com/dr_comicus/

Í samstarfi við Reykjavíkurborg stóð Atli fyrir sýningunni “Gluggað í Comicus”  sumarið 2020. Þar stillti hann verkum sínum upp í gluggum auðra veslunarrýma í miðborg Reykjavíkur.  Hægt verður að skoða mynd af Grafíkvinaverkinu á heimasíðu félagsins http://www.islenskgrafik.is  n.k. 2. febrúar.

 Á Vertarhátíð, verða Grafíkvinamyndirnar kynntar eins og verið hefur, í húsnæði félagsins Tryggvagötu 17, hafnarmegin, föstudaginn 5. febrúar kl. 18.00-20.00 

Einnig verður hægt að nálgast verkið laugardaginn 6. febrúar og sunnudaginn 7. febrúar á opnunartíma sýningarsalarins kl. 14.00-17.00 eða síðar eftir samkomulagi.

Greiðsla vegna verksins verður innheimt í gegnum heimabanka en þeir sem kjósa það frekar, geta greitt verkið á staðnum. Einungis greidd verk eru afhent. Verð er kr. 15.000-.

Það eru ennþá fáanleg verk eftir m.a. Kristján Daviðsson, Kristínu Gunnlaugsdóttur og Tryggva Ólafsson.

Beta Gagga “Sjéttering”

sjétt3

Beta Gagga / Elísabet Stefánsdóttir myndlistamaður opnar sýninguna

Sjétterning í Grafíksalnum, Hafnarhúsinu föstudaginn 10. Júlí kl.17-19.

Á sýningunni eru 16 ný grafíkverk. Sýningin stendur yfir til og með 19. Júlí.

Sýningin ber heitið Sjéttering og eru verkin unnin í vinsælustu litum Slippfélagsins sem eru hannaðir af Fröken Fix og Skreytum heimilið.  Verkin eru abstrakt verk með lífrænum undirtóni tónlistarinnar sem hljómaði á meðan verkin voru sköpuð.

Beta hefur haldið nokkrar einkasýningar og auk þess tekið þátt í fjölda samsýningum þ.á.m.  í Boston og New York í Bandaríkjunum, Englandi, Skotlandi, Svíþjóð, Danmörku,Þýskalandi, Finlandi og víðar.

Beta Gagga útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 með BA í grafíklist og lauk viðbótar diplóma í listkennslu við LHÍ 2003. Hún rekur vinnustofu á Korpúlfsstöðum og  gallerí á Korpúlfsstöðum ásamt fleirum listamönnum.

Opnunar tími Grafíksalsins  er  fimmtudaga til sunnudaga 14-17.

50 ára afmælissýning ÍG the 50th anniversary celebration

Félagið Íslensk grafík fagnar nú 50 ára afmæli sínu og í tilefni þess verður opnuð sýning á verkum 46 félagsmanna í Norræna húsinu laugardaginn 16. maí 2020.

Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.

Ör-Grafík
Á fyrsta sýningardegi milli klukkan 14 og 17 verður sýningargestum boðið að kynnast og prófa mismunandi grafík aðferðir með aðstoð leiðbeinanda. Vinnustofan fer fram í salnum á efri hæð hússins.
Sýningin stendur til 9. ágúst 2020 og aðgangur er ókeypis. Opnunartími Norræna hússins er þri-sun 10-17. Lokað á mánudögum.

Verk félagsmanna eru unnin með ýmsum aðferðum grafíklistarinnar. Sýningunni er ætlað að fagna starfsemi Íslenskrar grafíkur og þeirri breidd í aðferðum og tækni sem félagsmenn hafa tileinkað sér á löngum og farsælum starfstíma félagsins. Á sýningunni verða einnig valin verk heiðursfélaga Íslenskrar grafíkur.

Uppgangur hefur verið í grafíklistinni á undanförnum árum á Íslandi og í nágrannalöndunum. Það er mikið fagnaðarefni hversu vel grafíkin hefur haldið velli sem listgrein og heldur áfram að eflast. Félagsmönnum í Íslenskri grafík hefur fjölgað töluvert á síðastliðnum áratug og eru þeir nú um hundrað talsins.

Fjölmargar af sýningum Íslenskrar grafíkur hafa verið haldnar í Norræna húsinu, allt frá upphafsárum félagsins. Þykir okkur því viðeigandi og ánægjulegt að halda afmælissýninguna í sýningarsalnum Hvelfingu sem nýlega var opnaður á neðri hæð Norræna hússins eftir endurbætur.

Félagið Íslensk grafík, sem einnig er kallað Grafíkfélagið, var stofnað í núverandi mynd árið 1969 og hefur starfað óslitið síðan. Upphaf þess má þó rekja til ársins 1954. Félagið er hagsmunafélag og fagfélag myndlistarmanna sem leitast við að efla tæknilega og listræna færni sína í grafíkinni og finna sköpun sinni þar farveg. Félagið hefur um árabil rekið sýningarsal og vel búið verkstæði sjávarmegin í Hafnarhúsinu í Reykjavík en heldur senn á nýjar slóðir með starfsemi sína. Meðal meginmarkmiða félagsins er að stuðla að framgangi grafíklistar hér á landi með sýningahaldi á verkum félagsmanna hérlendis og erlendis og að kynna erlenda grafíklist á Íslandi. Félagið hefur í gegnum tíðina staðið fyrir heimsóknum fjölda erlendra grafíklistamanna til landsins og hafa námskeið þeirra í ýmiskonar grafíktækni haft mikilvægt menningar- og fræðslugildi. Sýningar félagsins á verkum þeirra hafa jafnframt haft mikil áhrif á listamenn og aðra listunnendur hér á landi. Verkin á sýningunni í Norræna húsinu endurspegla þá miklu fjölbreytni sem ríkir í listsköpun félagsmanna og nálgun þeirra við grafíkina og er afmælisóður til félagsins Íslensk grafík á hálfrar aldar afmælinu.

Til hamingju með afmælið og heill þér fimmtugri, Íslensk grafík!

-Birta Guðjónsdóttir

Mynd í banner er samsett af verki Bjargar Þorsteinsdóttur (1940–2019) Óskasteinar frá árinu 1986 og lógói félagsins eftir Jón Engilberts (1908-1972) frá árinu 1970.

 

Fáðu myndlist að láni í Artoteki Norræna hússins
Listlánadeild bókasafns Norræna hússins er glæsilegt safn grafík listaverka eftir norræna grafíklistamenn. Með aðeins lánþegaskírteini í bókasafninu geta allir fengið 3 grafíkverk að láni í 3 mánuði í senn. Vertu velkomin til okkar í Artotek Norræna hússins til að skoða úrvalið.

Bókasafn Norræna hússins