Grónar leiðir / Fertile Paths 25.08-11.11.22 Aðalheiður Valgeirsdóttir

Velkomin á opnun sýningar Aðalheiðar Valgeirsdóttur Grónar leiðir/ Fertile Paths í Grafíksalnum fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17:00.

Á sýningunni eru ný málverk og vatnslitamyndir.

Málverk Aðalheiðar Valgeirsdóttur eru myndir af gróandanum í lífinu, dýrðinni, óreiðunni, hinu snertanlega og ósnertanlega, leiðum og leiðartálmum náttúrunnar; þáttum er leggja örlagavegi í lífi okkar. Gróðurinn, litauðgi og mild hreyfingin á myndfletinum lokkar okkur til sín, við svífum inn í myndirnar og öndum inn í hæga hreyfingu plantnanna sem greina má á þeim. Ef til vill erum við á göngu innan um vatnagras sem ættað er samt aðallega úr kvikmyndaminni. Ef til vill upplifum við einskonar draumaútfærslu á flækjum og lausnum í vökulífinu.
Inn í hvaða vídd veraldar erum við komin?
Við göngum inn í ástand, inn í lífræna óreiðu þar sem við þó vitum að ríkja afar heillandi og vel uppbyggð kerfi, sem starfað hafa frá því fyrir okkar tíma og munu starfa eftir okkar dag.
Þessi óreiða, ástandið, teygir sig útfyrir strigann. Striginn felur í sér uppstækkaða mynd af víðfeðmara umhverfi.

Í olíumálverkunum sjáum við glitta í heiðan himin eða bláleita vatnsuppsprettu á milli plöntustilkanna, sem raðast upp í eins og þunnu lagi af óreiðu. Þetta eru síkvik eilífðarmynstur sem hér eru fest í málverkinu. Í þessum verkum standa þeir sterkir en dreifðir svo loftrými myndast á milli þeirra, svokallað negatíft rými. Óræður bakgrunnurinn gefur engar staðarupplýsingar upp aðrar en þær að við séum stödd í skálduðu andrými, rými þar sem skynja má spennu vegna þess óræða sem býr inn á milli stilkanna og gæti mætt okkur á svipstundu. Við greinum ekki sérstaka árstíð, plönturnar búa yfir lífi og krafti en á þeim eru hvorki auðsjáanleg blóm né önnur merki um hvar í þeirra eigin lífshringrás við komum að þeim. Á sumum verkanna má etv. greina dýralíf á milli plöntustilkanna. Við erum minnt á að jörðin er lifandi og öll erum við hluti af lífskeðju, sem er í senn forgengileg, viðkvæm og sterk, falleg og fullkomin í breyskleika sínum.

Málverkin eru ekki gluggasýn af raunverulegu umhverfi, þau eiga sér ekki sérstakar fyrirmyndir og eru í raun ekki af ákveðnum stað eða tegundum heldur mætti segja að þau endurspegli ástand þess sem dýrkar náttúruna, litadýrð hennar, dulmagn og hina óendanlegu snilli sem býr í kerfum hennar; hinu háþróaða rótar- og boðskiptakerfi, óreiðukenndum sýnileika plantna ofanjarðar, dreifikerfi frjókorna með vindi og fyrir tilstilli skordýra og heilagri geómetríu forma þeirra. Sá sem dýrkar náttúruna er hluti af henni, við sem horfum á myndirnar fáum hlutdeild í skynjun á plöntulífi í gegnum sjónarhorn einhvers sem er meira en áhorfandi, sjónarhornið er þess sem er hluti af plöntuheildinni.

Á sýningunni má sjá bæði stór olíumálverk og minni vatnslitamálverk sem unnin eru á árunum 2021 og 2022. Þetta eru afar litrík verk, máluð af sterku innsæi og öryggi í þunnum lögum og tæpast í litatónum er sjást í íslenskri náttúru. Þetta eru lagskiptar myndir af dularfullu rými, er sveiflast á milli mikillar dýptar og birtu. Þessi birtingarmynd náttúrunnar gæti verið hvaðan sem er í heiminum. Það er suðrænn blær yfir litasamsetningunni, og hiti.
Við erum með sólina í bakið og okkur er hlýtt.
Á náttúrugöngu innan þessara mynda mýkist augnaráð okkar og opnast. Við verðum eftirtektarsamari, meðvitaðri um hringrásir lífsins og þessi slaka athygli gerir okkur andlega móttækilegri fyrir öðrum orkusviðum tilverunnar. Það er ávallt áhugavert að íhuga, á menningarlegum grundvelli, hvað gerist við það að myndgera náttúru og ennfremur náttúru sem ekki á sér raunverulega fyrirmynd. Er slík myndgerð leið til innra samtals við náttúruna í sjálfum okkur, náttúru sem hugarástands, leið til að tengja okkar eigið rótarkerfi neðar í jarðveginn?

 Birta Guðjónsdóttir