Litaóm – 6.08-21.08

Sýningin Litaóm er samstarfsverkefni myndlistarmannanna ÓIafar Rúnar Benediktsdóttur, Unnar G. Óttarsdóttur og Ránar Jónsdóttur.

Sýningin “Litaóm”, opnar laugardaginn 6. ágúst kl. 16-18 í Grafíksalnum, Tryggvagötu 17, Reykjavík (Hafnarhúsið, gengið inn hafnarmegin). Sýningin stendur yfir til 21. ágúst. Opnunartímar eru fimmtudagur til sunnudags kl. 14.00-17.00. Öll hjartanlega velkomin.
Sýningin Litaóm er samstarfsverkefni myndlistarmannanna ÓIafar Rúnar Benediktsdóttur, Unnar G. Óttarsdóttur og Ránar Jónsdóttur. Þær hafa unnið saman og haldið myndlistarsýningar, síðan þær luku allar námi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands, sem listatvíeykin Yottazetta annars vegar og Bergmann Skagfjörð hins vegar.

Á sýningunni Litaóm kanna listamennirnir litbrigði í myndum, hljóði og tilfinningum. Verkin á sýningunni eru þátttökugjörningur, 3-víður skúlptúr, hljóðskúlptúr og tvívíð verk.
Verk Unnar nefnist Líðan í litum. Fjallar það um að tilfinningar gefa lífinu lit. Litir kalla á líðan og líðan birtist í litum. Meðvitund um líðan og tenging við liti eflir tilfinningatakt (e. reglulation). Áhorfendum gefst tækifæri til að taka þátt í verkinu.

Verk Ólafar er hljóðverk unnið úr upptökum teknar í túrbínuhúsum heimarafstöðva í Vestur-Skaftafellssýslu. Með eftirvinnslu breytir hún hljóðunum og einangrar ýmis blæbrigði sem hún fléttar svo saman í margbreytilega hljóðmynd. Hljóðverkinu fylgja teikningar sem eru unnar upp úr fundnum landslagsteikningum og vélarmyndum. Myndefnið sem verkin eru unnin útfrá er mestmegnis fengið úr bókum á bókasafni orkustofnunar.

Á sýningunni eru nokkur verk sem Ólöf og Rán unnu saman sem listatvíeykið Yottazetta. Þær teikningar eru unnar út frá Maxwell jöfnum rafeðlisfræðinnar, en höfundur þeirra ætlaði þeim að lýsa eiginleikum rafsegulbylgja sem eru efniviður ljóss og lita og hljóðvinnslu
Verk Ránar er samsett úr 3-víðum skúlptúrum og málverkum og eru leikur með vísun í gömul og ný litakerfi, einkum litakerfi Philip Otto Runge sem var uppi um 1800. Verkin eru í mismunandi litum sem unnir eru úr grátónum og 3 grunnlitum.

Ólöf hefur starfað sem myndlistamaður, skáld og tónlistamaður. Hún hefur sett upp sýningar víðs vegar um land, þ.á.m. í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, í verksmiðjunni á Hjalteyri og á LUNGA á Seyðisfirði. Um þessar mundir spilar hún með hljómsveitinni Svartþoku samhliða myndlistinni.

Rán er með msc gráðu í rafmagnsverkfræði og starfar sem verkfræðingur og myndlistarmaður auk þess sem hún rekur auk þess eigið fyrirtæki: Hálogi Distillery Reykjavík.

Unnur er starfandi myndlistarmaður og listmeðferðarfræðingur (PhD) og fjalla mörg verk hennar um tengingu á milli þessara tveggja faggreina. Listaverk Unnar hafa verið sýnd í hóp- og einkasýningum, m.a. í Listasafninu á Akureyri, Listasafninu á Ísafirði, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Færeyja, Edsvik Kunstall í Stokkhólmi og Lorgo das Artes í Brasilíu