GRÉTA MJÖLL BJARNADÓTTIR – “…ekki skapaðar heldur vaxandi”

33837609_10156390365074803_2801441961263759360_oGréta Mjöll Bjarnadóttir sýnir “…ekki skapaðar heldur vaxandi” í Grafíksalnum Tryggvagötu 17 1. júní til 17.júní. Opnun kl. 17.00

Gréta Mjöll Bjarnadóttir sýnir „…ekki skapaðar heldur vaxandi” í Grafíksalnum Tryggvagötu 17 1. júní til 17.júní. Á sýningunni er unnið á abstrakt hátt með myndmálið þar sem myndrænar hugmyndir vaxa í ferlinu og beitt er sjónrænum aðferðum við að miðla sögum.
Gréta Mjöll dregur fram skynjun sína og tilfinningar í flæði og segir myndrænar sannsögur. Hún beitir þessum áhrifum í sjónrænan vettvang á þann hátt að þær eru ekki fyrirfram skapaðar heldur vaxnar sannmyndir. Kannski með þeim skilningi að lífið með alls konar upplifun og ferli breytinga kalli fram vöxt, endurnýjun eða annan skilning á eigin sögu. Gréta Mjöll býður áhorfendum í heimsókn inn í hugarheim sinn ekki ólíkt hugmyndinni í myndinni „Being John Malkovitch“.

Verkin verða til í löngu ferli og má upphafið rekja til „handþrykkja“ eða skissa sem unnar voru á lífrænan hátt í heimilislegu flæði. Sýningin er eitt flæði frá skissum, stafrænni vinnslu þessara skissa í lög sem eru m.a. skorin út í í birkikrossvið í tölvustýrðum risafræsara CNC í FabLab. Í framhaldinu fer fram prentun þar sem olíulitir eru bornir á plötuna eftir upplifun, tilfinningu og innsæi augnabliksins líkt og í málverki og prentað á pappír í nokkrum lögum. Það má segja að þarna sé farin ný leið eða nýsköpun í aðferðum þar sem nútímatækni er beitt á gamlar hefðir klisjugerðar og prents.

Myndirnar eru stór prent eða 100×70 en Gréta Mjöll hefur unnið á þennan tæknilega hátt í nokkur ár að blanda saman nútímatækni fræsara við stafræna vinnslu flæðis og hefðbundið þrykk.
Gréta Mjöll hefur áður sýnt geometriskar útfærslur byggðar á þessari tækni m.a. í San Francisko og Las Vegas en lífrænu myndirnar sem eru á sýningunni eru allar nýjar. Sýndar eru skissurnar – plöturnar/klisjurnar og þrykkin sjálf. Ennfremur verður sannsögulegt hljóðverk byggt sameiginlegum vangaveltum og hugmyndum nokkurra einstaklinga á ákveðnu ferli og vídeóverk frá vinnuferlinu.