Exhibitions

TILTEKT – Friðrika Gunnlaug Geirsdóttir

Verið velkomin á opnun sýningar Friðriku Gunnlaugar Geirsdóttur föstudaginn 18. nóvember kl 17-19 í Grafíksalnum, Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17, Reykjavík. Inngangur er hafnarmegin.

Sýningin ber heitið T I L T E K T en þar eru viðraðar ólíkar myndir frá ýmsum tímum.

Sýningin mun standa til 4. desember og verður opið fimmtudaga til sunnudaga kl 14 – 17.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Um stað/About a Place – Soffía Sæmundsdóttir

Laugardaginn 29. október klukkan 16 opnar Soffía Sæmundsdóttir myndlistarmaður sýninguna
Um stað/About a Place 29.10-13.11.2022 í Grafíksalnum, sýningarsal félagsins Íslensk grafík í
Hafnarhúsinu Tryggvagötu 17 hafnarmegin.

Á sýningunni eru stórar teikningar og verk á pappír og viðfangsefnið er staður á Suðurlandi sem er henni persónulega kær og hefur verið innblástur að ýmsum verkum gegnum tíðina. Hvað er þar? Kannski einhver óljós þráður? Glitofin perla upplifana og skynjunar í fylgsnum hugans sem hún
finnur þörf fyrir að koma frá sér í ýmsa miðla. Með því að kortleggja svæði minninga og færa í orð er dregin fram breytt landnotkun sem opnar á nýja nálgun. Skrásetning lita og upplifana í gróðri og náttúrufari er ómarkviss en rétt.Niðurstaðan tilviljunum háð og alls ekki ígrunduð. Samhliða sýningunni verður bókverk Soffíu sem hún nefnir:
Sveitin mín – Leiðarvísir gefið út í 100 tölusettum og árituðum
eintökum.


Soffía á að baki langan og farsælan feril. Hún hefur verið virk á myndlistarvettvangi frá útskrift úr grafíkdeild MHÍ 1991. Hún hefur staðið fyrir ótal sýningum, tekið þátt í samsýningum, rekið vinnustofu og verið virk í félaginu Íslensk grafík.

Sýningin er opin alla daga nema mánudaga frá klukkan
14-17 og stendur til 13. nóvember.

Djúp minninga

DJÚP MINNINGA 8. okt. – 23. okt. 2022

Gréta Mjöll Bjarnadóttir, Margrét Eymundardóttir og Ólöf Ágústína Stefánsdóttir
Opnun laugardaginn, 8. október kl 16.

Sýning í Grafíksalnum Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17. Gengið inn bakdyramegin.
Grafíksalurinn er opinn frá miðvikudegi til sunnudags kl 14 – 17.

Hver og einn einstaklingur fæðist með minningar forfeðra sinna og mæðra í frumunum. Eftir því sem á ævina líður hlaðast upp minningar, lifaðar og sögur frá öðrum. Þær hafa áhrif á okkur sem manneskjur. Hver erum við? Minningar ylja og minningar særa. Við opnum og lokum á þær til að geta haldið áfram daglegu amstri. Svo kemur að því að þær kalla á okkur, verða áleitnar og þarfnast krufningar. Á sýningunni Djúp minninga deilum við hver og ein minningum okkar í sameiginlegu rými sem mögulega kalla fram persónulegar minningar hjá áhorfandanum.

Rótin að sýningunni liggur í rannsóknarvinnu okkar, sem er sprottin úr jarðvegi listkennslu, listsköpunar og á sér samsvörun í reynslu okkar. Eftir að hafa kennt list- og verkgreinar um langt skeið höfum við að undanförnu unnið að undirbúningi námsefnis á því sviði. Markmið þeirrar samvinnu er meðal annars að kanna snertifleti listsköpunar, listkennslu og listrannsókna. Kennsla okkar hefur miðað að því að vekja áhuga barna og ungmenna ásamt því að hvetja þau til að dvelja í sköpuninni. Ef það tekst þá er markmiðum einstaklingsmiðaðrar kennslu náð. Með því að iðka list- og verkgreinar verður sköpunin að nærandi og styrkjandi afli. Áhugi á þessu sviði hefur leitt okkur áfram í flóknu starfi og þróunarvinnu. Við veltum fyrir okkur áleitnum spurningum um tilgang námsins í tengslum við: framtíðarsýn nemenda, eflingu sjálstæðis, velsæld, samfélagsbreytingar, listræn gildi og þarfir. Verkin á sýningunni byggja á þessum grunnþáttum og þeim sameiginlegu þráðum sem þeir kalla fram úr djúpi minninganna.

Plakat eftir Óðal Hjarn Grétu

ÚTÓPÍA/STAÐLEYSA Margrét Jónsdóttir

Velkomin á sýningu Margrétar Jónsdóttur ÚTÓPÍA/STAÐLEYSA í Grafíksalnum Hafnarhúsinu, hafnarmegin þann 16 september kl. 16:00 til 19:00.


Sýningin stendur yfir til 2. október og er opin alla daga frá kl. 14 –18. Margrét sýnir verk sem hún hefur unnið undanfarin 3 ár og málað með náttúrulegum efnum.

Grónar leiðir / Fertile Paths 25.08-11.11.22 Aðalheiður Valgeirsdóttir

Velkomin á opnun sýningar Aðalheiðar Valgeirsdóttur Grónar leiðir/ Fertile Paths í Grafíksalnum fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17:00.

Á sýningunni eru ný málverk og vatnslitamyndir.

Málverk Aðalheiðar Valgeirsdóttur eru myndir af gróandanum í lífinu, dýrðinni, óreiðunni, hinu snertanlega og ósnertanlega, leiðum og leiðartálmum náttúrunnar; þáttum er leggja örlagavegi í lífi okkar. Gróðurinn, litauðgi og mild hreyfingin á myndfletinum lokkar okkur til sín, við svífum inn í myndirnar og öndum inn í hæga hreyfingu plantnanna sem greina má á þeim. Ef til vill erum við á göngu innan um vatnagras sem ættað er samt aðallega úr kvikmyndaminni. Ef til vill upplifum við einskonar draumaútfærslu á flækjum og lausnum í vökulífinu.
Inn í hvaða vídd veraldar erum við komin?
Við göngum inn í ástand, inn í lífræna óreiðu þar sem við þó vitum að ríkja afar heillandi og vel uppbyggð kerfi, sem starfað hafa frá því fyrir okkar tíma og munu starfa eftir okkar dag.
Þessi óreiða, ástandið, teygir sig útfyrir strigann. Striginn felur í sér uppstækkaða mynd af víðfeðmara umhverfi.

Í olíumálverkunum sjáum við glitta í heiðan himin eða bláleita vatnsuppsprettu á milli plöntustilkanna, sem raðast upp í eins og þunnu lagi af óreiðu. Þetta eru síkvik eilífðarmynstur sem hér eru fest í málverkinu. Í þessum verkum standa þeir sterkir en dreifðir svo loftrými myndast á milli þeirra, svokallað negatíft rými. Óræður bakgrunnurinn gefur engar staðarupplýsingar upp aðrar en þær að við séum stödd í skálduðu andrými, rými þar sem skynja má spennu vegna þess óræða sem býr inn á milli stilkanna og gæti mætt okkur á svipstundu. Við greinum ekki sérstaka árstíð, plönturnar búa yfir lífi og krafti en á þeim eru hvorki auðsjáanleg blóm né önnur merki um hvar í þeirra eigin lífshringrás við komum að þeim. Á sumum verkanna má etv. greina dýralíf á milli plöntustilkanna. Við erum minnt á að jörðin er lifandi og öll erum við hluti af lífskeðju, sem er í senn forgengileg, viðkvæm og sterk, falleg og fullkomin í breyskleika sínum.

Málverkin eru ekki gluggasýn af raunverulegu umhverfi, þau eiga sér ekki sérstakar fyrirmyndir og eru í raun ekki af ákveðnum stað eða tegundum heldur mætti segja að þau endurspegli ástand þess sem dýrkar náttúruna, litadýrð hennar, dulmagn og hina óendanlegu snilli sem býr í kerfum hennar; hinu háþróaða rótar- og boðskiptakerfi, óreiðukenndum sýnileika plantna ofanjarðar, dreifikerfi frjókorna með vindi og fyrir tilstilli skordýra og heilagri geómetríu forma þeirra. Sá sem dýrkar náttúruna er hluti af henni, við sem horfum á myndirnar fáum hlutdeild í skynjun á plöntulífi í gegnum sjónarhorn einhvers sem er meira en áhorfandi, sjónarhornið er þess sem er hluti af plöntuheildinni.

Á sýningunni má sjá bæði stór olíumálverk og minni vatnslitamálverk sem unnin eru á árunum 2021 og 2022. Þetta eru afar litrík verk, máluð af sterku innsæi og öryggi í þunnum lögum og tæpast í litatónum er sjást í íslenskri náttúru. Þetta eru lagskiptar myndir af dularfullu rými, er sveiflast á milli mikillar dýptar og birtu. Þessi birtingarmynd náttúrunnar gæti verið hvaðan sem er í heiminum. Það er suðrænn blær yfir litasamsetningunni, og hiti.
Við erum með sólina í bakið og okkur er hlýtt.
Á náttúrugöngu innan þessara mynda mýkist augnaráð okkar og opnast. Við verðum eftirtektarsamari, meðvitaðri um hringrásir lífsins og þessi slaka athygli gerir okkur andlega móttækilegri fyrir öðrum orkusviðum tilverunnar. Það er ávallt áhugavert að íhuga, á menningarlegum grundvelli, hvað gerist við það að myndgera náttúru og ennfremur náttúru sem ekki á sér raunverulega fyrirmynd. Er slík myndgerð leið til innra samtals við náttúruna í sjálfum okkur, náttúru sem hugarástands, leið til að tengja okkar eigið rótarkerfi neðar í jarðveginn?

 Birta Guðjónsdóttir

Litaóm – 6.08-21.08

Sýningin Litaóm er samstarfsverkefni myndlistarmannanna ÓIafar Rúnar Benediktsdóttur, Unnar G. Óttarsdóttur og Ránar Jónsdóttur.

Sýningin “Litaóm”, opnar laugardaginn 6. ágúst kl. 16-18 í Grafíksalnum, Tryggvagötu 17, Reykjavík (Hafnarhúsið, gengið inn hafnarmegin). Sýningin stendur yfir til 21. ágúst. Opnunartímar eru fimmtudagur til sunnudags kl. 14.00-17.00. Öll hjartanlega velkomin.
Sýningin Litaóm er samstarfsverkefni myndlistarmannanna ÓIafar Rúnar Benediktsdóttur, Unnar G. Óttarsdóttur og Ránar Jónsdóttur. Þær hafa unnið saman og haldið myndlistarsýningar, síðan þær luku allar námi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands, sem listatvíeykin Yottazetta annars vegar og Bergmann Skagfjörð hins vegar.

Á sýningunni Litaóm kanna listamennirnir litbrigði í myndum, hljóði og tilfinningum. Verkin á sýningunni eru þátttökugjörningur, 3-víður skúlptúr, hljóðskúlptúr og tvívíð verk.
Verk Unnar nefnist Líðan í litum. Fjallar það um að tilfinningar gefa lífinu lit. Litir kalla á líðan og líðan birtist í litum. Meðvitund um líðan og tenging við liti eflir tilfinningatakt (e. reglulation). Áhorfendum gefst tækifæri til að taka þátt í verkinu.

Verk Ólafar er hljóðverk unnið úr upptökum teknar í túrbínuhúsum heimarafstöðva í Vestur-Skaftafellssýslu. Með eftirvinnslu breytir hún hljóðunum og einangrar ýmis blæbrigði sem hún fléttar svo saman í margbreytilega hljóðmynd. Hljóðverkinu fylgja teikningar sem eru unnar upp úr fundnum landslagsteikningum og vélarmyndum. Myndefnið sem verkin eru unnin útfrá er mestmegnis fengið úr bókum á bókasafni orkustofnunar.

Á sýningunni eru nokkur verk sem Ólöf og Rán unnu saman sem listatvíeykið Yottazetta. Þær teikningar eru unnar út frá Maxwell jöfnum rafeðlisfræðinnar, en höfundur þeirra ætlaði þeim að lýsa eiginleikum rafsegulbylgja sem eru efniviður ljóss og lita og hljóðvinnslu
Verk Ránar er samsett úr 3-víðum skúlptúrum og málverkum og eru leikur með vísun í gömul og ný litakerfi, einkum litakerfi Philip Otto Runge sem var uppi um 1800. Verkin eru í mismunandi litum sem unnir eru úr grátónum og 3 grunnlitum.

Ólöf hefur starfað sem myndlistamaður, skáld og tónlistamaður. Hún hefur sett upp sýningar víðs vegar um land, þ.á.m. í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, í verksmiðjunni á Hjalteyri og á LUNGA á Seyðisfirði. Um þessar mundir spilar hún með hljómsveitinni Svartþoku samhliða myndlistinni.

Rán er með msc gráðu í rafmagnsverkfræði og starfar sem verkfræðingur og myndlistarmaður auk þess sem hún rekur auk þess eigið fyrirtæki: Hálogi Distillery Reykjavík.

Unnur er starfandi myndlistarmaður og listmeðferðarfræðingur (PhD) og fjalla mörg verk hennar um tengingu á milli þessara tveggja faggreina. Listaverk Unnar hafa verið sýnd í hóp- og einkasýningum, m.a. í Listasafninu á Akureyri, Listasafninu á Ísafirði, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Færeyja, Edsvik Kunstall í Stokkhólmi og Lorgo das Artes í Brasilíu

Sigla Binda – Bókverkasýning 

Verk eftir Svanborg Mattiasdóttir – Haf
Í sal Íslenskrar Grafíkur í Hafnarhúsinu í Reykjavík, 16. júní – 3. júlí 2022.   

 

,,SIGLA BINDA“ er samvinnuverkefni tveggja listhópa: Arkir frá Íslandi og Codex Polaris frá Noregi. Listamennirnir sem taka þátt í verkefninu eru 10 talsins, fimm frá hvoru landi.  Kveikjan að samstarfinu er sameiginleg ástríða allra þátttakenda fyrir bókverkalistinni, metnaður til að skapa nýja list og áhugi á samvinnu og samtali um menningararfinn. Menning Íslands og Noregs eiga sér sameiginlegar rætur, í tungumáli og sögu og lífsbaráttu í norðrinu. 

Þátttakendur í sýningunni eru: Anna Snædís Sigmarsdóttir, Ingiríður Óðinsdóttir, Kristín Þóra Guðbjartsdóttir, Sigurborg Stefánsdóttir, Svanborg Matthíasdóttir, Nanna Gunhild Amstrup, Solveig Landa, Rita Marhaug, Imi Maufe og Randi Annie Strand. 

Opnun sýningarinnar verður fimmtudaginnn 16. júní kl. 17:00. 

Sýningin er opin alla fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 13 – 17.   

Allir velkomnir.   

Nánast portrett – Victor Cilia

Nánast portrett – Myndlistarsýning Victors G. Cilia

Þann 26. mai kl.16 opnar Victor Cilia sýningu sína. “Nánast portrett” í sýningarsal Íslenskrar Grafíkur að Tryggvagötu 17, Rvk. hafnarmegin. Sýningin stendur til 12 júní

Á sýningunni eru pastelmyndir sem eru unnar á árunum 2018 til 2021.

Verkin eru I beinu framhaldi af fyrri verkum Victors nema kanski að hann notar pastelliti frekar en olíu.
“Ég hef notað Pastelliti mjög mikið hingað til í stórar skissur fyrir málverk og hugmyndavinnu en prófaði að fara alla leið með þær og fullvinna sem pastelverk.
Victor notar portrett myndir sem nokkurskonar þema í sýningunni sem gefur verkunum vissa jarðtengingu. Af og til losnar um portrett myndbygginguna og formin fara á flot. Enda eru þetta ekki portertt, en nánast.

20/20 Sölusýning til styrktar flóttamönnum frá Úkraínu

Hvert þrykk kostar kr.5000.-

Helgina 20.– 22. maí mun Íslensk Grafík efna til samsýningar á grafíkverkum listamanna víðsvegar að, sem hafa tekið þátt í alþjóðlegri „ferðasýningu“ 20/20 í sýningarsal Íslenskrar Grafíkur að Tryggvagötu 17, Rvk.

Opnun föstudag 20. mai kl 17–19
laugardag 21. mai kl.14 -17 og sunnudag 22. maí kl. 14 – 17

Ferlið bakvið þessar 20/20 sýningar er að þeir sem tekið hafa þátt unnu grafíkverk í 25 eintökum í stærðinni 20×20 og þar blandast verkin inn í möppur með öðrum 20/20 listamönnum frá öðrum grafíkverkstæðum um allan heim.
Fær hver þátttakandi senda möppu til baka frá Hot Bed Press með 20 ólíkum verkum ásamt eintaki eftir sig. Öll verkin fara svo á Flickr síðu þeirra: (www.flickr.com/photos/hot_bed_press).
Verkin hafa einnig verið til sýnis víðsvegar um heiminn en nú gefst áhugasömum tækifæri til þess að líta listaverkin augum og kaupa ef vill. En íslenskir grafíklistamenn hafa tekið höndum saman og ákveðið að gefa verk úr sinni möppu og mun ágóðinn renna til félagsins og til flóttamanna Úkraínu .

Rut Rebekka – Málverk og grafík

Málverk og Grafík.

Rut Rebekka opnar sýningu í Íslensk Grafík  Laugardaginn 2 apríl kl.14

Málverkin eru olía á striga, máluð 2019 til 2022, grafíkin er olíu sáldþrykk.

Sýningin er opin kl.14 til 17 fimmtudaga til sunnudaga og lýkur sunnudaginn 17 apríl  kl.17:30. Allir velkomnir.

Þetta er 24 einkasýning Rutar Rebekku Sigurjónsdóttur, en hún er fædd í Reykjavík 1944. Hún hefur stundað myndlist í 48 ár og hennar helstu einkasýningar hafa verið á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg, í Norræna húsinu, Gallerie GammelStrand Kaupmannahöfn, Hamar Kunstforening Noregi, Piteaa Kunstforening Svíþjóð og fleiristöðum. Ásamt tekið þátt í fjölmörgum  samsýningum hérlendis og erlendis eins og í  Beiing Kína, New york, Boston, Munchen, Heidelberg, Köln, Aarhus Kunstforening. Næstved Danmörku og fleirri stöðum.

Listnám sitt stundaði Rut Rebekka í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Myndlista og handíðaskóla Íslands og í Skidmore Collage NY USA. Unnið í vinnustofum  erlendis eins og í Danmörku. Sveaborg Finnlandi, Kjarvalsstofu  París og verið gestakennari í myndlist í Skidmore Collage NY.