Síðasti sýningardagur

Sýningin Slæður með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur var opnuð í sal Íslenskrar grafíkur, Hafnarhúsinu 26. mars sl. Opnunin var einungis með örfáum boðsgestum og lifandi streymi á facebook. Nú er komið að síðust sýningarhelgi en sýningin samanstendur af grafíkverkum og teikningum í víðum skilningi, innsetningum gerðum úr gömlum gardínum sem ýmist hanga eða er stillt upp í notuðum vínkössum og minna á leikhús eða aðra viðburði í lífi manneskju. Sýningin minnir á hið dularfulla, hættulega, draugalega, leikræna og svífandi. Myndlistamaðurinn er að skoða upplifun fólks í rými og hvernig þau bregðast við slíku rými. Stuðst er við kenningar Toninos Griffero um stemningu og fagurferði í rými og hugtök í þeirri speki t.d. tilfinningatengd skynspeki og um hin lifandi líkama í lifandi rými. Allur efniviður á sýningunni er notaður enda er endurvinnsla, hringrásarhagkerfið og sjálfbærni listamanninum hugleikin þannig breytast gamlar álrimlagardínur í teikningu af fossi, gamalt garn breytist í teikningu af línum og gamalt stórris fær að vera innsetning.
Sýningin verður opin á milli kl.14-17 föstudags – sunnudaga en hún er einstaklega barnvæn sýning.
Gunnhildur lauk tvíhliða BA námi í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama háskóla árið 2006 og lauk viðbótardiploma í listkennslu við LHÍ á haustönn 2019. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars í Listasafni Reykjanesbæjar, Kirsuberjatrénu, í Suðsuðvestur, Flóru á Akureyri, í SÍM salnum, Slunkaríki, sal Íslenskrar grafíkur auk þess að taka þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Hafnarborg, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu, 002 gallerí og Tate Britain.