Verk Grafíkvina árið 2015, “Brot” er dúkrista eftir Aðalheiði Valgeirsdóttur (f. 1958). Verkið er þrykkt af listamanninum sjálfum í þremur litum, með vatnsleysanlegum og eiturefnalausum þrykklitum frá Daler Rowney, á 250 gr. Hahnemühle grafíkpappír. Lítill rauður flötur/brot er málað með vatnslit. Upplag verksins er 80 eintök. Stærð myndar er 14,5×19 cm og pappírsstærð 20x28cm.
Aðalheiður lauk námi frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún helgaði sig grafíklist á fyrstu árum ferils síns en hefur á síðari árum nær engöngu fengist við málverk í listsköpun sinni. Hún hefur haldið 19 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.
Aðalheiður hefur lokið BA og MA námi í listfræði frá Háskóla Íslands og starfar bæði sem myndlistamaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur.
Verk Aðalheiðar hafa sterka skírskotun í náttúru landsins og þau blæbrigði sem skapast af tíma, veðráttu og birtu í samspili við hugmyndir mannsins um umhverfi sitt og tengsl hans við það.