
Verið velkomin á opnun sýningar minnar Tímamót, föstudaginn 1. nóvember kl 17-20 í Grafíksalnum, Tryggvagötu 17 (hafnarmegin).
Sýningin stendur til og með 10. nóv og verður opið þriðjudag til sunnudags kl 14-18.
Tímamót: tilraunir og tilviljanir
Verk mín eru aðallega unnin sl. 3 ár en nokkur eldri fá að fylgja með á þessum tímamótum. Þau eru unnin með mismunandi aðferðum grafíkþrykks, eins og tréristur, æting, mezzotint, sólarþrykk, lithografí og frjálst handþrykk. Myndefni mitt er náttúran mikil eða minni í sveit og borg kallar á mismunandi tilraunir grafíktækninnar.
Með aldrinum hef ég nálgast myndefni og tækni með meira frelsi en áður, fer frjálslegar með og jafnvel persónulegri nálgun fyrir bragðið. Hugmyndir spretta upp gjarnan í náttúrunni eða á göngu um „göturnar mínar“ í Reykjavík og seinna meir víðar. Í vinnuferlinu koma nýjar hugmyndir til mín gjarnan eins og elding og sumar hverfa jafnskjótt aftur. Þær nýtast þó vel stundum ef ég man þær og þá aðallega núna í brunnloka myndum mínum.
Brunnlokin
Hugmyndin þar að baki var í upphafi að þrykkja af brunnlokum gatna í Reykjavík sem ég hef búið við en á ferð minni í Noregi bættist við brunnlok í Sandnes, þar sem við hjónin vorum með barnabörnum í nokkra daga. Brunnlokin þar voru svo skrautleg að ég stóðst ekki mátið, græjaði mig upp og þrykkti. Ég var kölluð í forfallakennslu í skóla í Grafarvogi nú á haustdögum og á skólalóð þar tók ég eftir mjög skrautlegu brunnloki sem ég læddist að á sunnudegi með manni mínum og þrykkti en það var grískt mynstur á brunnlokinu. Það hefur verið mikil upplifun að þrykkja af brunnlokunum og talsverð áskorun en sérdeilis skemmtileg, sér í lagi viðbrögð fólks við þessu uppátæki mínu, börn og fullorðnir brugðust mismunandi við og átti ég stundum skemmtileg samtöl við fólkið sem staldraði við. Þá upplifði ég líka undarleg „flashback“ augnablik sem voru jafnvel soldið dularfull enda á æskuslóðum og öðrum stöðum sem vöktu upp sterkar minningar.
Verið öll hjartanlega velkomin.
GÓLA
Gunnhildur Ólafsdóttir
Ég lauk námi í grafíkdeild MHÍ og kennaranámi í KHÍ en áður hafði ég lokið Tækniteiknun. Hef kennt myndlist yfir þrjátíu ár ásamt því að vera alltaf með vinnustofu með minni grafíkpressu. Ég hef í gegnum árin farið á mörg endurmenntunarnámskeið í myndlist/grafík og kennslu á Íslandi og á Norðurlöndum, og fór einnig í listfræði í HÍ.
Nokkrar einkasýningar hef ég haldið og tekið þátt í mörgum samsýningum í gegnum árin, bæði hér heima og erlendis td. í Stokkhólmi, Turku og New York.
