
Senn líður að útgáfu hinnar árlegu Grafíkvinamyndar hjá Íslenskri grafík.
Listamaður ársins 2025 er Helgi Þorgils Friðjónsson
“Spegill”
Stærð myndarinnar er 18,0 x 23 cm, stærð pappír 21,0 x 29,7 cm í 70 eintökum.
Tækni er dúkrista.
“Skýjafar fjærst eins og kyrrt ljósflökt að kvöldi eða að morgni. Sjóndeildarhringur þverlína yfir myndflötinn og honum fylgt eftir með löngum djúpum þveröldum, eða meira eins og sjórinn andi stórum löngum djúpum andardrætti og renni saman við hugmynd um tíbránna. Þegar framar dregur í myndflötinn breytist sjórinn í létt leikandi öldur og öldugjálfur og grípur í sig skýjaflöktið. Svo steinvölur á strönd.
Vængirnir endurtaka form aldanna og efniskennd skýjanna og fljúga eins og ljósið og hár sundmannsins fylgir langljóslínum djúpaldanna og blekkingu tíbrárinnar. Nefið fylgir öldunum líka eftir og hverfur í tíbránna og langlínurnar sem gera einskonar spé spegilmynd og styður þannig sjónhverfinguna. Maríuerla speglar sjálfa sig og er með gogg í gogg og er nálægðin og fjarlægðin. Skuggi sundmannsins er þverlínur á heildarmyndina. Sundmaðurinn fer eitthvað. Vængjamaðurinn er draumur. Maríuerlan veltir fyrir sér hvort spegilmyndin sé hún sjálf.” HÞF
Helgi Þorgils Friðjónsson er fæddur árið 1953. Hann stundaði nám við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, De Vrije Academie í Haag Hollandi og við Jan Van Eyck Academie í Maastricht Hollandi. Helgi Þorgils er einn af okkar þekktustu listamönnum, hann hefur bæði kennt myndlist ásamt því að vera virkur í stjórnar og nefndarstörfum í listheiminum.
Hann hefur haldið fjöldann allan af einkasýningum og einnig tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Verk eftir Helga Þorgils eru m.a. í eigu Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Listasafni Háskóla Íslands, í fjölda listasafna í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og víðar.
Verða verk Helga Þorgils til sýnis á Safnanótt og um þá helgi, 7.-9. febrúar í sal félagsins, Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, hafnarmegin. Þá verða Grafíkvinamyndirnar einnig kynntar eins og verið hefur. Safnanóttin sjálf verður föstudaginn 7. febrúar og verður þá opið í Grafíksalnum kl 18:00-21:00, en einnig verður opið laugardag og sunnudag kl 14:00-17:00. Það eru ennþá fáanleg verk eftir m.a. Kristján Davíðsson, Kristínu Gunnlaugsdóttur og fl.
Tilboð fyrir Grafíkvini, “Innrammarinn” á Rauðarástíg er með 20% afslátt á innrömmun á Grafíkvinamynd.
Grafíkvinir eru mikilvægur bakhjarl félagsins.
Öll velkomin! Ókeypis aðgangur!

