
UPPRISA KONUNNAR: HÚN ANDAR; DÆSIR, BROSIR OG HLÆR
Hulda Vilhjálmsdóttir í Sal Íslenskrar grafíkur
Opnun fimmtudaginn 21. mars kl 17 til 19. Opið virka daga kl. 15-18. Helgar kl. 14-17. Lokað á mánudögum.
Þegar Kristján Davíðsson kenndi við Myndlista-og handíðaskólann forðum daga hafði hann orð á sér fyrir að vera ekki mjög afskiptasamur leiðbeinandi. Hann var spar á ábendingar, og vildu nemendur ekki hlíta ráðum hans, fengu þeir að hafa sína hentisemi óáreittir. Því kom það flatt upp á marga þeirra þegar kennarinn gaf sig sérstaklega að einum nemanda, stelpuskotti sem við fyrstu sýn virtist ekki eiga mikið undir sér. Hann fylgist grannt með vinnubrögðum hennar og bauð henni á endanum heim á vinnustofu sína. Þar leysti Kristján hana út með teikningu, sem hún er enn með uppihangandi á heimili sínu.
Mér segir svo hugur að Kristján, með sitt háþróaða myndnæmi, hafi verið með þeim fyrstu til að koma auga á hæfileika Huldu Vilhjálmsdóttur, sem sannað hefur hvað eftir annað að hún er listmálari fram í fingurgóma. Ekki ósvipað og Kristján sjálfur. En kennarinn og nemandinn eru ólíkir listamenn. Meðan Kristján er fyrst og fremst túlkandi hins alltumlykjandi lífskrafts, élan vital, eins og hann birtist í síbreytileika náttúrunnar, þá smíðar Hulda sér ævintýralega og mjög persónulega myndveröld úr öllum blæbrigðum tilfinninganna, jafnt himinlifandi hamingju sem dýpsta svartnætti, og fyllir hana með því fólki og fyrirbærum sem hún hefur velþóknun á. Hins vegar eiga þau Kristján og Hulda það sammerkt, eins og ég hef ýjað að annars staðar, að þeim er báðum fyrirmunað að mála myndir sem ekki hreyfa við okkur áhorfendum á einhvern hátt, þökk sé meðfæddum skilningi þeirra á áhrifamætti litrófsins.
Þær myndir Huldu sem hér eru sýndar eru sem endranær gerðar af óvenjulegri hind: olíulitirnir eru á víxl gegnsæir og gegnþéttir, safaríkir eða skraufþurrir. Pensildrættir eru ýmist breiðir og kraftmiklir eða fíngerðir eins og köngulóarvefir. Sums staðar eru litir hennar yfirþyrmandi drungalegir, eða þeir ljóma af leikgleði. Þar sem eitthvað skortir á gáskann tekur Hulda sig til og býr til breiður af fjólubláum doppum eða örmynstrum til að gleðja augað. Í þeim tilfellum þar sem myndir hennar virðast barnslegar eða handahófskenndar, er listakonan á meðvitaðan hátt að virkja þá bernsku sköpunargleði sem okkur er öll ásköpuð.
Myndveröld Huldu er að stórum hluta reynsluheimur kvenna. Konurnar sem birtast svo iðulega í myndum hennar eru ýmist upphafnar sjálfsmyndir, ímyndaðar konur sem listakonan vill eiga orðastað við eða minningar um konur sem hún hefur einhvern tímann fyrirhitt. Þetta eru konur sem ljóma af feimnislegum kynþokka, íklæddar engu nema slegnu hári sínu og fíngerðu skarti: perlufestum og armböndum, sem listakonan hefur unun af að útlista. Og atburðarrásin í myndum Huldu gengur oft út á einhvers konar núning milli heims þessara kvenna og heimsins hið ytra; tilraunir þeirra til að yfirstíga þær takmarkanir sem hin ytri heimur setur þeim. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að á þessari Páskasýningu skuli Hulda framar öðru vilja halda upp á upprisu konunnar, eiginlega og óeiginlega, í allri sinni margþættu líkamlegu dýrð.
Aðalsteinn Ingólfsson
