ALISTAIR MACINTYRE “MIRRORS WITH LONG MEMORIES”

Sýningaropnun, fimmtudaginn 22.júní n.k. kl.17. 

Grafíksalurinn hjá Íslenskri grafík í Hafnarhúsinu (hafnarmegin). 

Sýningin stendur til 9.júlí 2023

 Opið alla daga nema mánudaga milli kl. 12-18

Frá því um síðustu aldamót hef ég þróað tímatengt vinnuferli sem byggir á bráðnun íss, og samhliða skoðað undirstöður og aðferðir hliðrænnar ljósmyndar. Sýningin gaumgæfir ýmsa snertifleti sem finna má hér á milli, en í báðum tilfellum er það tíminn sem kallar fram endanlega mynd.  Í nýrri verkum vísa ég einkum til myndraða  Étienne Jules Marey og Eadweard Muybridge.  Ljósmyndin er endurunnin; rist og mótuð í járni og komið fyrir í ísklumpi.  Hér falla til sem setlög augnabliks kennileiti í sögu ljósmyndunar. 

Við ísbráðnunina botnfellur járnið á þykkan pappírinn og samspil skapast við polla ísvatnsins. Efnafræðilegur núningur milli járns, vatns og hvata glæðir kviknandi form lífi og njörvar þau niður í tíma, líkt og þegar ljósmynd kemur fram á pappír í framköllunarvökva. Eins og skuggi sem mjakast út úr þokunni birtist hin endanlega niðurstaða –  hægfara í gegnum ísinn sem þynnist og verður æ gegnsærri – og á einhverjum dögum og vikum styrkist ryðskánin og útlínur skýrast. 

Eftir situr patína sem,  – líkt og þegar ljósmynd verður til -, birtir hinn þrívíða heim í formi myndar á tvívíðum fleti.